Bylgjan og Stöð 2 buðu til garðveislu og stórtónleika í Hljómskálagarðinum á Menningarnótt þann 20. ágúst 2016 en stöðvarnar fögnuðu báðar 30 ára afmæli.
Í Hljómskálagarðinum var viðstöðulaus tónlistarveisla frá kl. 17 – 22:45 á tveimur samliggjandi sviðum með risaskjá á milli. Meðal þeirra sem komu fram voru; Axel Flóvent, Steinar, Sylvía, Geiri Sæm og Hungastunglið, Friðrik Dór, Á móti sól, Valdimar, Bítlavinafélagið, Amabadama, Mezzoforte og Jón Jónsson.
Bylgjan var fyrsta útvarpsstöðin og Stöð 2 var fyrsta sjónvarpsstöðin sem fóru í loftið eftir að fjölmiðlalögum var breytt árið 1986. Bylgjan hóf útsendingar 26. ágúst 1986 og Stöð 2 fór í loftið 9. október sama ár.
Frá upphafi hafa þessar stöðvar skipað stóran sess í útvarpshlustun og sjónvarpsnotkun landsmanna sem tóku fjölbreytninni fagnandi. Tónlistarveislan var í beinni útsendingu bæði á Bylgjunni og á Stöð 2.
Dagskráin í dag
Fylgstu með okkur
Facebook